144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[12:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur nákvæmlega skilið hvað ég var að fara með athugasemd minni sem ég vil á þessu stigi ekki kalla gagnrýni heldur athugasemd. Í fyrri parti umræðunnar greindi hæstv. ráðherra aldrei frá því að það kynni að vera í andstöðu við ákvæði EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga ef við bönnuðum einfaldlega fortakslaust erlend lán og gengistryggð til manna eins og mín og hans sem ekki erum í atvinnurekstri eða höfum tekjur í erlendum gjaldmiðli. Það er kannski skrýtið jafnræði en það er samt jafnræði. Ég upplifi það sem ójafnræði gagnvart mér og öðrum í minni stöðu að einhverjir aðrir megi fara þessa leið, þ.e. njóta vafans eins og hæstv. ráðherra sagði, en það er samt frelsi og ég get skilið þá frelsishugsjón. Ég skildi það mætavel þegar hv. þm. Sigríður Andersen reifaði einmitt sitt viðhorf og mér er sama þó að menn njóti frelsis til að gera hluti sem ég get ekki gert á meðan þeir skaða mig ekki og þá sem ég stend fyrir. Í ræðu sinni skildi hæstv. ráðherra þetta nákvæmlega og sagði að við vissar aðstæður, þ.e. ef margir fara þessa leið og það verða einhvers konar sviptingar á markaði sem leiða til þess að margir í einu þurfa að afsetja eigur sínar og ráðast inn á gjaldeyrismarkaðinn, getur það haft alvarleg áhrif á stöðu krónunnar og þar með á kjör alls almennings.

Ég er algjörlega viss um að í fyrsta kafla framkvæmda þessara laga verða menn strangir og passa sig vel. Svo líður tíminn. Svo fer hitt frumvarpið að tikka inn sem við vorum að ræða hér í gær, menn verða svolítið liðugir með bónusana og þá eru bankamenn á bónusum komnir í þennan freistnivanda, menn sem hagnast á því að ráðleggja mönnum. Við vorum líka að tala um greiðslumöt þannig að ég óttast að í þessu kunni að vera fólgin hætta, skil út frá hugmyndafræði hæstv. ráðherra að hann vill fara langt til að veita frelsi en það má ekki verða á kostnað almennings. Mér sýnist vera hætta á því.