144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það braust fram hláturskjöltur í mér þegar ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir að hið mikla Evrópusamband væri að taka upp nokkra burðarása úr neyðarlögunum sem við bjuggum til hér á haustdögum á handahlaupum og í mikilli hraðskák. Það undirstrikar nú hversu vel þau lög hafa reynst okkur.

Ég vil segja að ég er ósammála þeirri túlkun sem kemur fram í erindi innstæðutryggingarsjóðsins til hæstv. ráðherra. En ef það er þörf á því að eyða lagalegri óvissu þá tel ég sjálfsagt að gera það. Á sínum tíma ætluðu menn náttúrlega ekki að láta þessi bú lifa jafn lengi og þau hafa gert. Þetta var skoðað á sínum tíma og menn voru ekki þessarar skoðunar en ég tel sjálfsagt að eyða allri óvissu þar um og get glaður samþykkt þetta frumvarp.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra einnar tæknilegrar spurningar: Eru slitabúin að greiða inn í sjóðinn? Ég er bara ekki klár á því, ef hæstv. ráðherra veit það.

Í annan stað, án þess að ég hafi verið að plaga hæstv. ráðherra mikið með því að spyrja eftir gangi afnáms gjaldeyrishafta sem auðvitað felur í sér að vinda loksins upp þessi slitabú, þá undrast ég langlundargeð hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að hafa málin í þessari stöðu. Ég spyr, þrátt fyrir allar hans góðu yfirlýsingar, m.a. á þessum morgni, um að nú sé einhvers konar landsýn í málinu: Þarf ekki að gera reka að því að sjá til þess að þau geti ekki haldið áfram í núverandi stöðu?

Að síðustu, herra forseti: Hvenær má gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra, vegna þess að það er skylt þessu máli, komi með frumvörp um innstæðutryggingar til endanlegrar lúkningar á hinu háa Alþingi? Og ég spyr hann líka í tengslum við það: Er samhljómur um það í stjórnarliðinu?