144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég vék að í framsöguræðunni er ekki gert ráð fyrir því að iðgjöld vegna fyrri tímabila verði endurgreidd en í því felst að ég legg áherslu á að þetta mál verði klárað sem allra fyrst þannig ekki verði heimt tryggingagjald af fjármálafyrirtækjum í slitameðferð á næsta greiðslutímabili. Þessar innheimtur hafa byggst á þeirri túlkun tryggingarsjóðsins að fjármálafyrirtæki í slitameðferð nytu tryggingaverndar þannig að þau hafa þá verið að greiða iðgjöld. Með því að samþykkja frumvarpið fyrir næsta álagningartímabil má koma í veg fyrir að aftur verði innheimt af þeim og slitabúin þar með tekin undan tryggingaverndinni. Þetta er, eins og hv. þingmaður vék að, túlkunaratriði í lögunum en þetta er skilningur tryggingarsjóðsins og hann framkvæmir lögin með þessum hætti og ég tel rétt, án þess að ég ætli að kveða upp úr með hver sé hin eiginlega rétta lagatúlkun, að við tökum af skarið um þetta.

Varðandi næstu skref í haftavinnunni þá hef ég lengi verið þeirrar skoðunar og ég hef lýst því opinberlega að það er afar óheppilegt að slitabúin hafi ekki náð að ljúka nauðasamningum. Það er óheppilegt í fyrsta lagi vegna haftavinnunnar því að við að uppfæra áætlun um afnám haftanna eru slitabúin verulega stór áhættuþáttur, en það er ekki síður óheppilegt vegna þess fyrirkomulags sem var samþykkt á sínum tíma að þau fengju í gegnum eignarhaldsfélög sín undanþágu frá hæfisskilyrðum laga sem virkir eigendur að bönkunum. Ég hef litið þannig á að það þyrfti (Forseti hringir.) að eiga einhvern aðdraganda ef menn ætluðu að breyta því en vonandi leysum við þetta allt í einu, (Forseti hringir.) fáum heilbrigt eignarhald að íslenska fjármálakerfinu og losnum við höftin í einu.