144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru alveg hárréttar ábendingar hjá hv. þingmanni og mikilvægt að öll umræða um innstæðutryggingakerfið séu grundvölluð einmitt á þessum réttu upplýsingum. Ég minnist þess frá þeim tíma þegar staða innstæðutryggingarsjóðsins var til umræðu í þinginu þá var á það minnst í efnahags- og viðskiptanefnd að innstæðutryggingarsjóðurinn og það kerfi allt saman væri blöff, en það væri mikilvægt blöff vegna þess að það gæfi svona góða tilfinningu, trauststilfinningu gagnvart kerfinu og stundum væri það það eina sem kerfið þyrfti að gera. Þetta er auðvitað á sama tíma afar hættuleg hugsun vegna þess að þessari góðu tilfinningu fylgir líka traust og tiltrú á að staðið verði við það sem gefið er í skyn. Upp á það skorti verulega og þess vegna voru margar ríkisstjórnir nauðbeygðar til þess að taka vanda bankakerfisins í fangið og skuldsetja þannig skattgreiðendur framtíðarinnar til að taka við af hinu stórgallaða og meingallaða kerfi. Um þetta þarf að ræða opinskátt og upplýsa fólk um raunverulegt eðli innstæðutryggingakerfisins.

Varðandi ábendingu hv. þingmanns um að kannski væri ekki ástæða til að veita jafn víðtæka vernd eins og gert er í dag, og þar var vísað til lögaðilanna, þá er kerfið þannig uppbyggt í dag að sumir eru undanskildir, njóta ekki verndar. Mér finnst eðlilegt að það sé jafnframt haft til skoðunar, kostir og gallar þess að undanskilja í ríkari mæli lögaðila þannig að einstaklingar njóti þá hlutfallslega betri stöðu.