144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ekki nema sjálfsagt mál að greiða götu þessa litla frumvarps. Ég hafði ekki áttað mig á því í sjálfu sér að staðan væri sú að þess væri þörf að taka af skarið sérstaklega með að innstæður sem væru komnar yfir í þetta samhengi, ef einhverjar væru, að tryggja að þær nytu sem sagt ekki tryggingaverndar, reyndar auðvitað ekki nein ástæða til.

Nú er það þannig eins og kunnugt er að með neyðarlögunum voru innstæður gerðar að forgangskröfum í bú þannig að það eitt og sér dugar auðvitað mjög vel og innstæðutryggingakerfinu er ætlað að vera til staðar til að bakka upp innstæður í starfandi fjármálafyrirtækjum og þeim sem eru að taka við innlánum á hverjum tíma og skapa einhverja tiltrú á það eða draga úr áhyggjum fólks yfir því að peningar þess séu ekki örugglega geymdir í bönkum og sparisjóðum og eftir atvikum öðrum fyrirtækjum sem eiga að taka við innlánum. Það er svo allt önnur umræða sem við þurfum ekki að eyða miklum tíma í hér hvernig það fyrirkomulag eigi að vera til frambúðar litið og væntanlegar breytingar í farvatninu í þeim efnum og hafa svo sem verið lengi. Við höfum hins vegar engu að síður byggt upp sjóð í nýrri deild Innstæðutryggingarsjóðs sem er þá til staðar til að verða grunnur að því frambúðarkerfi. En um það eru býsna skiptar skoðanir eins og kunnugt er.

Það sem ég tel ástæðu til að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir í tengslum við þetta mál, og aðeins hefur borið á góma í umræðum um frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki sem við höfum verið að ræða hér að undanförnu, er spurningin um allsherjaryfirlýsingu ríkisins um að allar innstæður í bönkum og sparisjóðum séu tryggðar og hvort einhvers sé að vænta í þeim efnum að byrjað verði að vinda ofan af henni eða taka beinlínis skref í þá átt til dæmis að frá og með einhverjum tímapunkti gildi þetta ekki lengur um stórar innstæður stofnanafjárfesta, lögaðila, sveitarfélaga eða slíkra aðila. Ég ímynda mér að það væri ekki óskynsamlegt að vinda ofan af þeirri gömlu yfirlýsingu sem ég veit ekki annað en núverandi ríkisstjórn hafi stillt sér upp á bak við rétt eins og fyrri tvær ríkisstjórnir allt frá 2008 í einhverjum slíkum áföngum. Vissulega er bankakerfið í dag, að minnsta kosti stóru bankarnir, svo vel fjármagnaðir og með ærna rúma lausafjárstöðu að það ætti ekki að vera nein minnsta ástæða fyrir því að hafa slíka yfirlýsingu áfram við lýði. Hún var og er og hefur aldrei verið annað en pólitísk, byggð á stuðningi meiri hluta Alþingis hvers tíma og í sjálfu sér, held ég, ekki verið einu sinni ágreiningur um. Þetta hefur verið pólitísk yfirlýsing um að ef til þess kæmi yrði staðið þannig að úrvinnslu iðnlánafyrirtækja sem lentu í vandræðum, að innstæðum allra væri borgið og við það hefur verið staðið í gegnum allt hrunið og allt sem síðan hefur gerst, vissulega með kostnaði fyrir ríkið í einu tilfelli þar sem var Sparisjóður Keflavíkur, sem svo illa tókst til að eignir dugðu ekki á móti innstæðum.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, af því að við vorum að ræða um innstæðutryggingakerfin og erum að tala um þau, að þann kostnað ríkisins væri eðlilegt að sækja til tryggingarsjóðsins og þá til gömlu deildar hans eftir atvikum, enda hefur hún ekki gengið út, það best ég veit, og þær skuldbindingar sem hún hefði að einhverju litlu leyti getað staðið við ef öðruvísi hefði skipast málum eru enn til staðar, en það er önnur saga.

Ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvar þessi mál eru á vegi stödd, því að þetta er auðvitað samhangandi. Við getum vissulega fjallað betur um það í nefnd og farið yfir það, en eiginlega var maður búinn að gleyma því að það eru hátt í tvö ár að verða liðin frá stjórnarskiptum og enn hefur ekkert frést af því hvernig menn ætla sér að fara með þessa allsherjarinnstæðutryggingayfirlýsingu, blankó garantíið sem svo var kallað, virðulegur forseti.

Strax á árunum 2010–2011 voru menn farnir að velta fyrir sér hvernig væri skynsamlegast í skrefum að vinda ofan af því máli en enn þá er staðan sem sagt þessi og ég vona að hæstv. ráðherra geti eitthvað upplýst um það.