144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að ágætisundirtektir eru við þetta mál og að það virðist geta fengið greiða afgreiðslu hér í þinginu eftir eðlilega skoðun og það skiptir máli eins og ég hef nefnt áður út af innheimtu tryggingagjaldanna. En hér er líka komið inn á nokkur önnur atriði.

Fyrst ætla ég að nefna að endurheimta kostnað ríkisins vegna þess sem ríkissjóður hefur lagt út til að tryggja innstæður. Ég er með það einmitt í sérstakri skoðun í ráðuneytinu hvort mögulegt sé að ríkið geti úr innstæðutryggingakerfinu endurheimt þann kostnað sem hægt er að sýna fram á að sé bein afleiðing af því að ríkið gerði ráðstafanir til að tryggja innstæður, og þar er einkum verið að horfa einmitt til SpKef. Það er til skoðunar.

Í öðru lagi varðandi yfirlýsinguna sem kom fram haustið 2008 og var síðar ítrekuð með sérstakri ríkisstjórnarsamþykkt er mikilvægt að hafa hina lagalega stöðu málsins í huga eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er sem sagt engin ríkisábyrgð á innstæðum. Á því byggði enda líka málflutningur íslenskra stjórnvalda fyrir EFTA-dómstólnum í Icesave-málinu og hann stóðst þar. Á sínum tíma var gefin út pólitísk yfirlýsing vegna þeirra aðstæðna sem þá voru uppi. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki séð ástæðu til þess að taka þá yfirlýsingu upp og gera hana sérstaklega að sinni eða að ítreka hana með neinum hætti og þá er sérstaklega vísað til þeirra aðstæðna sem eru uppi. Mér finnst það hins vegar vera alveg álitamál hvort ástæða er til að árétta stöðuna sérstaklega í þessum efnum (Forseti hringir.) og mun ræða það við kerfisáhættunefnd og í fjármálastöðugleikaráði næst þegar við komum saman.