144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er að minnsta kosti ástæða til að taka af skarið og tala skýrt eftir þessa ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Hann er nú yfirleitt gætinn maður og ég virði hann fyrir það, en ég held nú samt sem áður að menn hljóti að ráða í það sem hann hefur sagt á þessum morgni.

Hæstv. ráðherra hefur sagt að gefnar hafi verið ákveðnar pólitískar yfirlýsingar sem núverandi ríkisstjórn sjái ekki ástæðu til að ítreka. Það þarf engan Einstein til að lesa út úr því hvað hæstv. ráðherra er að fara og ég er ekki að segja að við séum ósammála, hann er auðvitað gefa í skyn breytta vegferð. Ef svo er þá er bara rétt að það komi fram. Ég er ekki að segja að það sé rangt. Aðstæðurnar eru allt öðruvísi.

Það eru ákveðnir hlutir sem eru algerlega skýrir og hafa verið skýrir. Í fyrsta lagi er það skýrt og fest með dómnum hjá EFTA að ríkið ber ekki þá ábyrgð sem það var sagt bera á sínum tíma. Pólitískar yfirlýsingar sem gefnar voru við sérstakar aðstæður voru reistar miðað við þær aðstæður og fólu ekkert annað í sér en yfirlýsingu um að bregðast við eftir getu, en þær voru ekki gefnar vegna þess að lögin krefðust þess. Það er mjög mikilvægt að menn séu algerlega skýrir í þeim efnum.

Að öðru leyti segi ég það bara að af því að það eru breyttar aðstæður núna og af því að það er kyrrð núna; ef menn ætla að breyta um stefnu er þetta kjörið tækifæri að gera það með þeim varfærna hætti sem æskilegt er. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort sú kyrrð og góða staða sem fólst efnislega í lýsingu hæstv. ráðherra sé líkleg til að vara. Þá er eitt sem hafa ber í huga og það er þetta: Hæstv. ráðherrar hafa talað um það nokkuð opið á síðustu vikum að hér verði ráðist í miklar aðgerðir til að aflétta gjaldeyrishöftum. Ja, þá er eins gott að þetta liggi fyrir, þá er eins gott að þessi afstaða liggi algerlega skýr fyrir. Ég bið því hæstv. ráðherra um að halda sem skjótast til fundar við kerfisáhætturáð og hafa þetta á hreinu.