144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra um það. Það hefur ekki verið þörf á neinum sérstökum pólitískum yfirlýsingum um stöðuna fyrr en núna, fyrr en eftir þessi ræðuhöld á þessum morgni, það er nú einfaldlega þannig.

Ég ætla ekki að fara í neitt skæklatog við hæstv. ráðherra. Ég veit að hann vinnur að þessum málum eftir því sem honum er unnt og get trúað honum fyrir því að stundum finnst mér sem honum og hæstv. forsætisráðherra sé fullþröngur stakkur skorinn í þessum efnum. Hitt er svo annað mál að við erum algerlega sammála um að staða bankakerfisins er allt öðruvísi núna en áður. Eigið fé er svo gjörólíkt að það er himinn og haf. Hæstv. ráðherra mundi nákvæmlega kórrétt hvernig staða Landsbankans var í upphafi hrunsins og veit það allra manna best hvernig hún er núna, 250 milljarðar í eigin fé. Koma menn svo ekki hingað upp í þennan stól jafnvel úr flokki hæstv. ráðherra og hans eigin ríkisstjórn og jagast í hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hafa skilið svo illa við Landsbankann? Þetta eru nú verk hans. Sé fyllstu sanngirni gætt, af því að hæstv. ráðherra er ráðvandur og heiðarlegur maður, væri kannski þörf á því að hann rifjaði það upp fyrir sínum eigin flokksmönnum af og til.

Að öðru leyti ætla ég ekki að segja annað í þessu máli nema að ég tel að um þessi mál og um það sem vonandi er fram undan, afnám gjaldeyrishafta, þarf að hafa sem ríkast samráð millum stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er farsælasta leiðin til að lenda þessu öllu saman með jákvæðum hætti. Fyrst ég er kominn á trúnaðarstig við hæstv. fjármálaráðherra get ég að endingu trúað honum fyrir því að mér finnst nokkuð á það skorta. Ef við tökum til dæmis þessar svokölluðu — og ég segi svokölluðu samráðsnefndir stjórnarandstöðunnar, eða sem hún á aðild að — herra trúr, frá því í desember hafa gengið út sjö eða átta yfirlýsingar frá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um að nú eigi að fara að ráðast í afnám gjaldeyrishafta. Það hefur ekki verið haldinn einn einasti fundur síðan þá.