144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að ríkið beri ekki að lögum ábyrgð á innstæðunum. Það getur vel verið að pólitískar aðstæður skapist — líkt og hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti hér áðan, um umhverfið úti í Evrópu — sem kallar á að ríki grípi inn í alveg eins og ríkið í Bretlandi gerði og sturtaði peningum í breska bankakerfið á sínum tíma. En ég tel það ekki æskilegt. Allt það sem við höfum verið að gera og reynt að vinna sameiginlega að er að skapa aðstæður og umhverfi þar sem slíkt gerist ekki. Fortakslaust er aldrei hægt að segja að það gerist ekki sem menn vilja helst varast. En frumvarpið sem lýst er að eigi að koma í haust — frumvörpin tvö sem við höfum verið að ræða síðustu daga og mörg önnur sem hafa komið fram, eru orðin að lögum, eiga eftir að koma fram miða öll að því einu að draga úr áhættu í bankakerfinu og koma í veg fyrir að skakkaföll verði fyrir almenning í landinu og einnig ríkið.

Ef við færum þessa leið þar sem hv þingmaður er að segja, svo að ég sletti ensku: Let´s call a Spade a Spade, hann er að segja að de facto beri ríkið ábyrgð á bönkunum, mun neyðast til að koma inn, þannig að við skulum þá bara stíga skrefið til fulls og rukka tryggingagjald fyrir það. En ef við stígum það skref — og nú er ég kannski meira að hugsa upphátt — þá erum við náttúrlega búin að setja snöruna um háls okkar og getum ekki tekið höfuðið aftur úr henni. Þá erum við búin að segja: Þessi ábyrgð er okkar hvað sem yfir dynur. Miðað við upphæðirnar sem hv. þingmaður var að nefna hér áðan, ef ég legg það saman við það sem hv. Pétur H. Blöndal sagði fyrr í dag, veit ég ekki hvort það bjargar miklu. Ég hef miklar efasemdir um það en er reiðubúinn að ræða þetta við hv. þingmann og hlusta á rök hans í þessu máli eins og jafnan fyrr.