144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:30]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og ákvæði um undantekningar frá tryggingavernd. Ég vildi bara rétt koma hér upp til þess að taka undir þau sjónarmið sem koma fram í frumvarpinu og árétta að það er að sjálfsögðu hið mikilvægasta mál að taka skýrt fram að ekki sé á því nokkur vafi að innstæður í eigu fjármálafyrirtækja sem eru í skila-, slita- eða gjaldþrotameðferð og fjármálafyrirtækja sem misst hafa starfsleyfi sín skuli ekki njóta innstæðutryggingar.

Hér í dag hafa spunnist afar áhugaverðar umræður í tilefni af þessu máli almennt um tryggingakerfi fyrir fjárfesta og innstæðueigendur og m.a. rætt um það hvort slík kerfi geti náð fram markmiði sínu á svo litlum markaði sem Ísland er, hvort þau séu yfir höfuð æskileg og hversu gagnleg slík kerfi séu. Ég vil kannski ganga enn lengra og spyrja: Hvers vegna þurfum við slík kerfi? Hver er rót þess vanda sem við höfum reynt að leysa með þessu kerfi? Rót vandans er að sjálfsögðu sú að í okkar kerfi eins og víðast annars staðar í fjármálakerfi okkar er fyrirkomulagið þannig að bönkum er heimilt að búa til peninga með þeim hætti að þegar þeir veita lán þá afhenda þeir ekki seðla sem búnir til eru í Seðlabankanum heldur búa til innstæður sem þeir búa til sjálfir úr engu. Um það er ekki deilt að þetta er sú aðferð sem bankar nota til að búa til peninga og þeim hefur ekki verið bannað það enn þá, en afleiðingin af því er sú að allir peningar í hagkerfi okkar eru ekki peningar búnir til af Seðlabankanum heldur er um 95% af því peningamagni sem er í umferð og er algjörlega nauðsynlegt fyrir hagkerfið að sé í umferð á öllum tímum í formi lausra innstæðna. Þessar lausu innstæður eru búnar til af fyrirtækjum sem heita innlánsstofnanir og ef innlánsstofnanir falla og innstæðueigendur lenda í þeim vandræðum að hafa ekki aðgang að innstæðunum þá hafa þeir heldur ekki aðgang að neinum peningum til að kaupa nauðsynjar eða eiga viðskipti í okkar hagkerfi. Þannig að hagkerfi okkar er orðið algerlega háð því að einhver einkafyrirtæki, bankar, falli aldrei. Á sama tíma hafa stjórnendur þessara banka fullan hag af því að auka áhættu fyrirtækjanna, reka þau með sem minnstu eigin fé og hafa sem hæsta bónusa af störfum sínum. Þegar hins vegar illa fer þá falla þessi fyrirtæki og valda miklum kostnaði fyrir ríkissjóð vegna þess að það er tæplega hægt á svo litlum markaði sem hér er að byggja upp innstæðutryggingarsjóð sem yrði nokkurn tímann nægilega stöndugur til þess að bjarga einum, hvað þá tveimur af þeim stóru viðskiptabönkum sem eru hér og eru kerfislega mikilvægir.

Þannig að ég vildi bara koma þessu að. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum með innstæðutryggingakerfi. Þau voru fundin upp í Bandaríkjunum fyrir um 200 árum, 100–200 árum og geta náð tilgangi sínum í Bandaríkjunum vegna þess að þar eru þúsundir lítilla banka sem greiða inn í innstæðutryggingarsjóð og þegar litlir eða meðalstórir bankar í Bandaríkjunum falla þá geta þessir sjóðir bjargað innstæðuhöfum og kostnaðurinn fellur ekki endilega á ríkissjóð. Staðan sem hér er uppi er sú að þrír bankar eru með rúmlega 90% af markaðnum. Þeir eru allir þrír og hver fyrir sig of stórir til að falla. Í rauninni er innstæðutryggingakerfið aukaatriði í þessu. Það mun alltaf reyna á ríkissjóð ef einhver þessara þriggja banka fellur. Þess vegna varpaði ég fram í andsvörum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson þeirri tillögu að við mundum bara horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er, átta okkur á því að þessir þrír stóru bankar njóta allir ríkisábyrgðar á lausum innstæðum og gera þeim að greiða ríkisábyrgðargjald af þeim eins og önnur fyrirtæki þurfa að gera sem njóta ríkisábyrgðar.

Ég held að skipti mjög litlu máli hvort ríkisstjórnin lýsi yfir eða lýsi ekki yfir ábyrgð á þessum innstæðum. Ábyrgðin er óumflýjanleg. Engin ríkisstjórn mun nokkurn tímann horfast í augu við að banki af þessari stærðargráðu falli vegna þess að afleiðingin af falli hans yrði óhjákvæmilega sú, ef innstæðuhöfum er ekki bjargað, að hagkerfið og samfélagið mundi komast í algjöra upplausn. Það er alltaf ódýrara fyrir skattgreiðendur að bjarga bankanum en að horfast í augu við afleiðingarnar af því að gera það ekki. Þess vegna er það gert og hefur alltaf verið gert. Þess vegna er alveg eins gott að horfast í augu við þessa staðreynd og fela þeim bönkum sem njóta þessarar ábyrgðar að greiða gjald fyrir. Ég skaut á það áðan að þar sem lausar innstæður eru hátt í 500 milljarðar í kerfinu þá mætti sjá fyrir sér, eins og kveður á um í lögum um ríkisábyrgðir, að greiða skuli 0,75 til 4% ábyrgðargjald á ári af þeirri ábyrgð sem veitt er. Ef farið væri í efri kantinn og 4% af 500 milljörðum eru 20 milljarðar, þá hefði með réttu, af þeim 80 milljarða hagnaði sem bankarnir voru að skila, þessir stóru þrír bankar á síðasta ári, 20 milljarðar átt að renna í ríkisábyrgðargjald og í ríkissjóð til sameiginlegra verkefna.

Þetta var það sem ég vildi segja í tilefni af umræðunum sem spunnust út frá þessu máli. Að öðru leyti vildi ég aðeins segja að ég á von á því að efnahags- og viðskiptanefnd muni skoða frumvarpið fljótt og vel og vinna að framgangi þess.