144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[13:48]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að fagna þessu frumvarpi um heimild lífeyrissjóða til að auka heimildir til að versla með verðbréf. Ég held að þetta sé mjög jákvætt, eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins eykur það fjölbreytileika og áhættudreifingu sjóðanna.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem hagvöxtur og verðmætasköpun munu aukast. Ég tel það vera gríðarlega jákvætt. Ég er með spurningu til hv. þingmanns sem er meira almenn og ekki endilega um frumvarpið: Hversu mikilvæga telur hann aukna fjárfestingu í minnstu og meðalstóru fyritækjunum? Getur hann reifað fyrir mig hvaða þýðingu það hefur almennt, ekki aðeins fyrir lífeyrissjóðina heldur hvað það þýðir fyrir þjóðina, þjóðarbúið, hver áhrifin eru á störf og fleira í þeim dúr?