144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar við fyrstu spurningu er ótvírætt: Já, ég hef fulla trú á formanni Sjálfstæðisflokksins.

Varðandi fullyrðingar hv. þingmanns um að lífeyrissjóðir séu að fjárfesta í alls kyns samkeppnisrekstri, það er bara ósköp eðlilegt. Flestallur rekstur í þessu landi er samkeppnisrekstur. En ég ætla bara að fræða þingmanninn um það eitt að tilgangur lífeyrissjóða er fyrst og fremst að greiða lífeyri. Tilgangur lífeyrissjóða er ekki að efla hagvöxt eða stunda hvers kyns atvinnusköpun.

Lífeyrissjóðir eiga nú þegar um það bil 120–130 milljarða inni í bönkum sem þeir þurfa að koma út til að dreifa sinni áhættu. Hv. þm. Haraldur Einarsson sagði hér áðan að þetta mundi dreifa áhættu sem er beinlínis rangt, þetta eykur áhættu lífeyrissjóðanna. Ég tel að þetta muni ekki verða lífeyrissjóðum til hagsbóta. Við skulum vara okkur á því að fara að nota lífeyrissjóði eins og brókina okkar til að efla hagvöxt að eigin geðþótta. Tilgangur lífeyrissjóða er aðeins einn. Hann er að greiða lífeyri.