144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Engu gæti ég verið meira sammála en því sem hv. þingmaður sagði hér áðan, um að lífeyrissjóðirnir hafi þann tilgang einan að greiða lífeyri og sjá lífeyrisþegum og bótaþegum farborða þegar þannig ber undir. Þess vegna kemur mér á óvart að hv. þingmaður skuli setja sig upp á móti þessu máli sem er beinlínis til þess fallið að efla fyrirtæki sem eru í hröðum vexti og eru örugglega að meiri hluta til dúndrandi ávöxtun fyrir lífeyrissjóðina. Ég skil ekkert í hv. þingmanni eins og ég segi, jafnframsækinn og frjálslyndur og ég hélt að hann væri, að hann skuli koma hingað með svona gamaldags forræðishyggju um að vera á móti því að lífeyrissjóðirnir ávaxti sitt pund í lífvænlegum fyrirtækjum sem eru líkleg til að skila sjóðunum gríðarlega góðri ávöxtun. Ég bið hv. þingmann að útskýra þetta fyrir mér, ég skil þetta ekki.