144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:10]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og nefndarálitið, sem hann skrifar gegn öllum öðrum þingflokkum á Alþingi, og það er virðingarvert. Vegna ræðu hans áðan, þar sem hann vitnaði til fyrri ræðu minnar, langar mig til að spyrja hann um áhættu.

Fyrst vil ég þó segja: Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að hugsa til fyrirtækja og að lífeyrissjóðir eigi ekki að efla hagvöxt. Að því sögðu vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt, ef lífeyrissjóðir eiga umframfjármagn og sjá kosti í því að fjárfesta hér innan lands, að þeim sé veitt aukin heimild til þess; ég tala nú ekki um ef lítil eða meðalstór fyrirtæki, sem ekki eiga marga eða góða kosti í fjármögnun, að þar séu fjárfestingarmöguleikar.

Ég vil spyrja hv. þingmann um möguleika lífeyrissjóða. Ég sé ekki alveg hvernig það eykur áhættu að gefa lífeyrissjóðum auknar heimildir eða fjölbreyttari kosti til að fjárfesta og til að nota fjármuni skattgreiðenda í að ávaxta sinn sjóð. Þá er markmiðið ekki að efla hagvöxt en það gæti eflt hagvöxtinn með því að þeir fjárfesti í fyrirtækjunum.

Ég vil inna hv. þingmann eftir þessu og jafnvel spyrja hvort hann teldi skaðlegt að auka þessar heimildir til fjárfestingar á markaðstorgi fjármálagerninga.