144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins og fæst af því sem ég segi hér skiljist. Ég hef aldrei talið að banna eigi lífeyrissjóðum að fjárfesta á markaðstorgi fjármálagerninga. Þeir hafa þá heimild nú þegar. Við erum hér að ræða um að auka það sérstaklega þannig að þeir hafi rýmri heimild til að fjárfesta í óskráðum bréfum, hækka það úr 20% í 25%. Þar af verði sérstök heimild, viðbótarheimild, á markaðstorgi fjármálagerninga.

Þegar stofnanir eins og lífeyrissjóðir eða kaupfélög eða viðlíka stofnanir ætla sér það hlutverk að fara að auka hagvöxt — hvar endar það? Ég held að menn ættu aðeins að hugsa smærra og hugsa um markmið lífeyrissjóðanna. Það getur vel verið að þessi markmið fari saman en að setja þau í forgang, ég bara bið menn um að fara varlega.

Svo átta ég mig ekki almennilega á því hvað hv. þingmaður var að fara hér, að það ætti að nota fjármuni skattgreiðenda. Þetta kemur skattgreiðendum ekki við. Þetta er þvingaður sparnaður sem er lagður á launþega og það að fara að tala um iðgjöld í lífeyrissjóði sem skatt, það bara skil ég ekki. Að öðru leyti ætla ég ekki að svara honum.

Ég bara vísa til þess sem ég hef áður sagt. Ég tel að þessar heimildir til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum séu jafnvel of háar, þessi 20%. Það er hægt að gera ýmislegt innan þessara 20% heimilda en fyrst og síðast segi ég að það verður að auka og þrýsta á það að lífeyrissjóðir fái að fjárfesta utan lands til að dreifa áhættu, og að þeir tapi ekki 90% af því sem þeir hafa keypt í íslenskum kauphöllum þannig að starfsfólk missi ekki bæði vinnuna og lífeyrinn. Það er það sem ég er að hugsa.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.