144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

beiðni um þingfund.

[15:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að setja hér á dagskrá fundarins síðar í dag aðför ríkisstjórnarinnar að Alþingi. Það verður að harma það að við ósk okkar þingflokksformanna, um þingflokksformannafund á fimmtudag og þingfund á föstudag, skyldi ekki verða orðið. Þingsköp kveða á um það að ef þriðjungur nefndarmanna óskar fundar í nefnd þá skal verða við því svo fljótt sem verða má. Þegar meira en þriðjungur þjóðkjörinna fulltrúa óskar eftir því að hér sé þingfundur í heyranda hljóði um eitthvert stærsta mál samtímans þá tel ég að forseta beri að verða við slíkri ósk.

Það hefur verið Alþingi til vansa að í fleiri, fleiri daga hefur verið fullkomin óvissa um meginatriði í utanríkisstefnu Íslands, misskilningur hjá helstu samstarfsríkjum okkar og yfirlýsingar stjórnarliða í út og austur um að hér sé allt frá því að vera stórpólitísk ákvörðun á ferð og yfir í það að ekkert hafi gerst. Þetta hefur formaður Sjálfstæðisflokksins fyrrverandi og forsætisráðherra og (Forseti hringir.) flokksbróðir Einars Kristins Guðfinnssonar þurft að kalla (Forseti hringir.) leikskóla. Þessi (Forseti hringir.) aðferð, hvernig hér hefur verið staðið að málum, hefur verið Alþingi til vansa og ekki á stöðu þess bætandi með slíku háttalagi.