144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

beiðni um þingfund.

[15:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Sú uppákoma sem varð í samfélaginu á fimmtudaginn var kallaði á mjög sterk viðbrögð í stjórnmálunum og meðal annars þau að við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar óskuðum eftir þingfundi tafarlaust. Við óskuðum eftir því með góðum rökum við hæstv. forseta að það dygði að 25 þingmenn óskuðu eftir því að þingsalurinn yrði opnaður fyrir lýðræðislegri og upplýsandi umræðu um þá stöðu sem upp var komin. Við því var ekki orðið. Það er, virðulegur forseti, ólíðandi og við verðum að halda því til haga að slíkt getur ekki liðist í lýðræðissamfélagi sem byggir á þingræði.

Ég vil hins vegar þakka hæstv. forseta fyrir þær breytingar sem hafa orðið á dagskrá dagsins og eru í þágu þess að leiða þessa umræðu fram í ljósið.