144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

beiðni um þingfund.

[15:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er algjörlega nauðsynlegt að Alþingi viti í raun hver stjórnskipan á þinginu er. Það er forseta og forsætisnefndar að skera úr um þá óvissu sem er uppi. Utanríkisráðherra vill meina, eins og kom fram í viðtali á RÚV sama dag og hann sendi þetta bréf, 12. þessa mánaðar, að aðildarumsóknin — ef við ætlum að fara aftur af stað þurfum við að sækja aftur um. Aðildarviðræðum hefur verið slitið. Það er líka það sem er kallað eftir í bréfinu, að yfirstjórn Evrópusambandsins geri slíkt, geri ráð fyrir því í sínum vinnureglum, þannig að aðildarumsókn er slitið.

Aftur á móti er hv. formaður utanríkismálanefndar ekki sama sinnis. Hann segir að aðildarviðræðunum hafi ekki verið slitið. Þetta er algjört óvissuástand sem forseti og forsætisnefnd geta ekki dregið lengi að skera úr um. Forseti hefur tækifæri til þess núna á eftir þegar við förum í umræðu um þetta mál, eftir óundirbúnar fyrirspurnir í þinginu eftir hálftíma — þá mun hæstv. ráðherra vera með framsögu (Forseti hringir.) og þar getur hann skorið úr um þetta. Þingheimur þarf að fá að vita þetta, landsmenn þurfa að fá að vita þetta og ráðherrar þurfa að fá að vita þetta.