144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þingsályktunartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eitthvað virðist hv. þingmaður hafa misskilið þetta. Það voru engir samningar við Evrópusambandið um hvernig að málinu yrði staðið. Það er hins vegar eðlilegt að menn fái það nú á hreint, eins og hv. þingmaður ætti að vera búinn að átta sig á eftir öll þessi ár, hvað felst í því að vera umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu. Það er mjög einfalt og kemur fram í sérstökum bæklingum sem stækkunarstjóri sambandsins gefur út til umsóknarríkja. Umsóknarríki lýsir því yfir að það vilji ganga í sambandið. Ef ríkisstjórn þess ríkis vill ekki ganga í Evrópusambandið á það land ekki að vera umsóknarríki.

Hvað varðar kenningar hv. þingmanns um eilífðargildi þingsályktunartillagna verður býsna erfitt fyrir ríkisstjórnir framtíðar að ætla að fylgja þeirri stefnu ef til dæmis hv. þingmaður kæmist einhvern tíma í ríkisstjórn og ætlaði að framfylgja öllum ókláruðum þingsályktunartillögum liðinna ára og áratuga. (ÁPÁ: … þingræðisvenja.)