144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

gildi bréfs utanríkisráðherra til ESB.

[15:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í ræða þá áráttu hæstvirtra ráðherra núverandi ríkisstjórnar að dvelja ávallt við síðasta kjörtímabil. Ég leyfi mér samt að undirstrika að þetta virðist vera nokkurs konar árátta. En gott og vel. (Gripið fram í: … í tímavél.) Þegar hæstv. fjármálaráðherra fór aftur til framtíðar langar mig að fá það algjörlega á hreint, lítur hann þá svo á að hæstv. ríkisstjórn sé ekki bundin af þessari þingsályktun? Lítur hann þá sömuleiðis á að hún sé ekki bundin af öðrum þeim þingsályktunum sem samþykktar hafa verið? Ég nefndi þingsályktun um stefnu okkar í Palestínumálum. Ég get rifjað upp þingsályktun um hvalveiðar sem var samþykkt hér, virðulegi forseti. Var það ekki 1999 eða 1998 sem hún var samþykkt, og virðulegur forseti var einn af flutningsmönnum? Eigum við að líta svo á, hæstv. fjármálaráðherra, að ríkisstjórnin sé ekki bundin af neinum þessara þingsályktana, eða telur ráðherrann einhver sérstök rök gilda um þá þingsályktun sem hér hefur sérstaklega verið til umræðu? Því að það er mikilvægt fyrir þá umræðu sem við ætlum að eiga á eftir um samskipti (Forseti hringir.) framkvæmdarvalds og löggjafarvalds.