144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

gildi bréfs utanríkisráðherra til ESB.

[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og ég rakti í fyrri ræðu minni var það þannig að þeir sem stóðu að þingsályktunartillögunni töldu sjálfir að þeir væru ekki bundnir af henni. Þeir áskildu sér rétt til að hætta við allt saman hvenær sem var. Þessa umræðu er að sjálfsögðu ekki hægt að taka án þess að ræða í samræmi við og í samhengi við þingræðisregluna. Ef menn trúa því í alvörunni að hér sé verið að ganga þvert á svig við þingviljann, hvers vegna leggja menn þá ekki fram vantrauststillögu á þá sem þannig standa að málum, á ráðherrann eða á ríkisstjórnina eftir atvikum? Hvers vegna ekki? (Gripið fram í.) Hvernig dettur mönnum í hug að halda því fram í þingsal að hér sé eitthvað það að gerast sem meiri hluti þingsins sé algerlega þvert á móti? Halda menn virkilega að þingmeirihlutinn geti þá ekki tekið völdin, greitt atkvæði, komið með vantraust o.s.frv.? (Gripið fram í.) Og tala um það að þingsályktun frá síðasta kjörtímabili sem var fengin fram með atkvæðagreiðslu eftir kattasmölun (Forseti hringir.) bindi þessa ríkisstjórn, að hún geti farið þvert gegn henni þrátt fyrir að lög mæli á annan veg, þetta auðvitað stenst enga skoðun. Þingræðisreglan talar nefnilega sínu máli. (Gripið fram í: Hún er á hálum ís.)