144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

ríkisstjórnarfundur um bréf utanríkisráðherra.

[15:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að því hvort hæstv. ráðherra hafi verið viðstaddur ríkisstjórnarfund þar sem fjallað var um bréfið sem ríkisstjórnin fól hæstv. utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, að færa Edgars Rinkevics og Johannes Hahn. Í því voru skilaboð um að Ísland væri ekki lengur í hópi umsóknarríkja að ESB. Voru allir hæstv. ráðherrar samhuga um það ferli? Leggur hæstv. ráðherra sama skilning í þennan gjörning og hæstv. ráðherrar utanríkis- og fjármála um að bréfið sé úrsögn úr aðildarferlinu eins og hefur ítrekað komið fram í viðtölum við þá?

Ef svarið er já langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort aðrar ályktanir þingsins séu sömu duttlungum háðar. Er það álit þingmannsins Sigrúnar Magnúsdóttur, núverandi hæstv. ráðherra og fyrrverandi hv. þingflokksformanns Framsóknarflokksins, að framkvæmdarvaldið geti hunsað þingræðið með því að taka ákvarðanir um meiri háttar mál án þess að bera þau undir löggjafarsamkunduna?

Að lokum langar mig að spyrja hv. fyrrverandi þingflokksformann og núverandi ráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur: Er það rétt sem fram kom í viðtali við Gunnar Braga Sveinsson, hæstv. ráðherra, að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi gert leynilegt samkomulag við Framsókn um leið og ríkisstjórnin var mynduð um að engin þjóðaratkvæðagreiðsla yrði nokkru sinni haldin? Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Tekur hún undir orð hæstv. utanríkisráðherra um að það breyti í sjálfu sér ekki hvað menn sögðu fyrir kosningar varðandi þjóðaratkvæðagreiðslurnar eða við borðið þegar verið er að semja um mál eða eitthvað slíkt?