144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB.

[15:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta ætla ég að hefja mál mitt á tilvitnun þar sem segir:

„Það sem mér þykir mestu máli skipta er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. Ég treysti þjóðinni til þess að taka upplýsta ákvörðun. Vegna þess hversu mikið ágreiningsmál þetta er milli flokka, milli þjóðarinnar, milli landsbyggðar og höfuðborgar, þetta fer í gegnum fjölskyldur, eina leiðin til að komast að niðurstöðu um það hvert skuli halda núna er að spyrja þjóðina.“

Þetta sagði núverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins 2013. Hvernig líður hæstv. ráðherra núna þegar ekki er bara búið að taka ákvörðun um að ganga fram hjá þjóðinni heldur er í ofanálag búið að taka ákvörðun um að ganga fram hjá þinginu við þessa ákvarðanatöku? Ég verð að spyrja, virðulegi forseti: Hvernig komust ríkisstjórnin og fulltrúar í henni svo langt frá sínum eigin skoðunum sem raun ber vitni núna? Hvernig á slíkt ferli sér stað?

Ég verð að segja alveg eins og er að ég á mjög erfitt með það að hlýða á fulltrúa ríkisstjórnarinnar tala svona um þingsályktanir. Ég verð líka þessa vegna að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún þurfi þá ekki á næstunni að fara í gegnum og upplýsa þingið um hvaða þingsályktunartillögur á hennar málasviði hafi haldið gildi sínu yfir kosningar. Þá er heiðarlegast að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geri það vegna þess að það liggur ekki ljóst fyrir. Það eina sem liggur ljóst fyrir er að þingsályktanir sem samþykktar hafa verið frá Alþingi eru allar fallnar úr gildi.