144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[15:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér að ávarpa hæstv. forseta Einar Kristin Guðfinnsson vegna þess að hér í umræðunni hefur komið fram að hann stjórnar upplýsingaskrifstofu ríkisstjórnarinnar. Menn eru búnir að koma að því hér, þ.e. hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson, að hann upplýsti þingið um sína afstöðu og síðan ættum við að hegða okkur eftir því. Er hæstv. forseti nú orðinn almannatengill? Fyrir mér er það grafalvarleg umræða sem á sér stað hérna þessa klukkutíma og daga um stöðu Alþingis Íslendinga. Við höfum oft kveinkað okkur undan leyndarhyggju, undan því að þingið sé sniðgengið. Það eru fá dæmi um að ríkisstjórn haldi fund á þriðjudegi. Það voru fundir í þingflokkum og fundir í nefndum en öllu haldið leyndu, og stjórnarþingflokkarnir loks kallaðir saman til fundar á föstudegi kl. 15 til að blessa þetta í þingflokkunum á miðjum nefndarfundi. Ég veit engin dæmi í líkingu við þetta síðan ég kom hingað inn 2007. Hér hafa menn staðið upp og verið heilagir yfir afgreiðslu þingsins á hverjum tíma, heilagir yfir leyndarhyggju, dásamað þingræðið (Forseti hringir.) — en ekki stendur steinn yfir steini.

Ég ætla ekki að trúa því að þessir 63 kollegar mínir á þingi ætli að láta þetta yfir sig ganga.