144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[15:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Svo má brýna deigt járn að bíti. En það er auðvitað full ástæða til þess, virðulegur forseti, eftir þau svör sem framkvæmdarvaldið hefur haft hér uppi að gjalda eindreginn varhuga við þeirri þróun sem hér blasir við. Formaður Sjálfstæðisflokksins talar í þessum ræðustól eins og ríkisstjórn megi gera allt sem henni sýnist bara ef þingið lýsir ekki vantrausti á hana.

Virðulegur forseti. Hér er verið að lýsa sjónarmiðum um fullkomið og algjört ráðherraræði. Aðeins eru örfá missiri síðan að saga Sjálfstæðisflokksins var gefin út í níu bindum á vegum Alþingis, rannsóknarskýrslan sjálf, og engum blöðum er um það að fletta að við þurfum þvert á móti að læra að virða þingræðið (Forseti hringir.) og vísa á bug hinum gegndarlausa hroka sem einkenndi ráðherrana í þessum fyrirspurnatíma.