144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki á að verða við hinni augljósu bón okkar um að bréfið furðulega verði afturkallað og málið lagt fyrir þingið til eðlilegrar umfjöllunar af forustumönnum stjórnarflokkanna. Það kemur fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að svo lengi sem þingflokkarnir efna ekki til styrjaldar gegn honum þá geti hann gert það sem hann vill. Formenn flokkanna töldu sig ekki örugga um að koma málinu í gegnum þingið og lögðu það þess vegna ekki fyrir þingið. Það er einfaldlega staðreynd málsins. Síðan skáka þeir í því skjólinu að svo lengi sem þeir þurfi ekki að sæta vantrausti úr eigin röðum þá geti þeir haldið áfram með þessum fáheyrða hætti.

Hæstv. forsætisráðherra bætti um betur áðan og sagði það beinlínis í svari sínu að hann hefði staðið í samráði við erlenda aðila um orðalag í þessu bréfi til að ganga fram hjá Alþingi Íslendinga. Þetta stappar nærri landráðum, virðulegi forseti.