144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála hv. þm. Róberti Marshall um að þessi ríkisstjórn skilji ekki stjórnskipun landsins. Ég held að henni standi bara algerlega á sama um hana. Menn eru tilbúnir að beita öllum þeim ráðum sem þeim dettur í hug til að koma vilja sínum fram og ef þingið þvælist fyrir þeim fara þeir bara fram hjá því. Það er það sem við erum að sjá gerast hér. En það var ekki minni hluti þingsins sem þvældist fyrir mönnum á síðasta þingi heldur var það meiri hluti utanríkismálanefndar sem gerði það. Það er kannski þess vegna sem menn leggja ekki í að koma með málið aftur hingað inn. Það er vegna þess að þeir telja ekki að þeir hafi afl til þess í ljósi reynslunnar.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja þetta: Það er algerlega ljóst í mínum huga miðað við röksemdafærsluna að baki þessari ákvörðun að allar þingsályktunartillögur falli niður við kosningar. Það er bara einfaldlega þannig. Ég skil ekki hvernig menn geta leyft sér að taka ákvarðanir um að hér sé eitthvert ætlað samþykki frá þinginu. Er það orðið þannig núna (Forseti hringir.) að þingið sé einhver stofnun þar sem ráðherrarnir geti tekið einhverja punkta, (Forseti hringir.) yfirlitsstöðu, og síðan ætlað samþykki eða ekki? Hvers konar eiginlega er þetta? (Forseti hringir.) Það þarf að fara vandlega yfir þetta.