144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í lögfræðilegri samantekt um gildi þingsályktunartillaga, sem gerð var á skrifstofu Alþingis fyrr á þessu kjörtímabili, kemur eftirfarandi alveg skýrt fram í samantekt og niðurstöðum, með leyfi forseta:

„Til heimilda stjórnskipunarréttarins teljast ályktanir Alþingis. Tilmæli sem í þeim felast og beint er til ríkisstjórnar eru bindandi fyrir ríkisstjórnina á grundvelli þingræðisvenjunnar.“

Jafnframt er tekið fram að þær eru ekki lagalega bindandi en þær eru bindandi á grundvelli þingræðisvenju.

Hvað þarf að gera? Ekki er ríkisstjórnin algjörlega bundin um aldur og ævi? Nei, ef þeir ætla að vanrækja það að uppfylla þingsályktunartillögur þurfa þeir að gefa Alþingi skýrslu um þær og segja: Nei, við ætlum ekki að framfylgja þeim. Ef aftur á móti þeir ætla að breyta málsmeðferðinni þarf að gera það með þingsályktun, eins og kemur skýrt fram, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður að gera ráð fyrir því að Alþingi sé upplýst um slíkar breytingar og um leið leitað afstöðu þingsins eða meiri hluta þess til breytinga á málsmeðferðinni.“ (Forseti hringir.)

Til að breyta málsmeðferð þarf að gera það með þingsályktun. Ef vanrækja á að framfylgja þingsályktun verður að gera það með skýrslu. (Forseti hringir.) Hvorugt var gert í þessu máli. Þetta verður að vera skýrt og forseti Alþingis þarf að skýra það fyrir landsmönnum.