144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Ég verð að segja það að það veldur mér mjög miklum vonbrigðum hvernig jafnvel reyndir þingmenn tala í þessari umræðu um stöðu þingsályktana og kannski ekki síst að við skulum vera stödd hér undir þessum dagskrárlið um fundarstjórn forseta. Það reyndar er ekki nýtt af nálinni að stjórnarandstaðan noti fundarstjórn forseta til þess að tala um Evróputengd mál. Þegar tillagan, sem þeir sakna nú svo mjög að komi ekki fram núna, kom fram á sínum tíma tók stjórnarandstaðan sig til, ekki til þess að flytja ræður um efni málsins, nei, heldur einmitt til þess að tala um fundarstjórn forseta til þess að skemma fyrir, til þess að tefja. Fluttar voru 158 ræður um fundarstjórn forseta á meðan málið var á dagskrá — 158 ræður um fundarstjórn forseta og talað í rúma fjóra klukkutíma samfellt um fundarstjórn forseta, allt til þess að málið sjálft yrði ekki rætt, málið sem allir sakna svo mikið núna úr stjórnarandstöðunni að liggi ekki fyrir þinginu. (Gripið fram í.)

Ég vek athygli á því að í samantekt (Forseti hringir.) og niðurstöðum lögfræðiálits sem sent hefur verið öllum þingflokksformönnum er þetta óskaplega skýrt. Það er engin ástæða til að láta svona um stöðu þingsályktana (Forseti hringir.) eins og hér er gert. Þetta er óskaplega skýrt hér. Meiri hlutinn ræður. [Háreysti í þingsal.]