144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg kristaltært að komin er upp grafalvarleg staða í þinginu. Staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu er í algjöru uppnámi og virðulegur forseti hlýtur að hafa verulegar áhyggjur af þeirri stöðu. Það er mikilvægt að við ræðum hér stöðu þingsins og hún sé skýrð og það sé algjörlega dregið fram hvaða gildi t.d. þingsályktanir hafa.

Ég vil biðja hæstv. forseta að finna út úr því hvort hann geti ekki séð til þess að öll hæstv. ríkisstjórn sitji hér undir umræðunum um stöðu Alþingis eða a.m.k. forustumenn ríkisstjórnarinnar sem hafa haft uppi mjög einkennileg orð sem við verðum að taka til umræðu, ekki bara í dag heldur næstu daga.