144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að þakka hæstv. forseta Einari K. Guðfinnssyni fyrir þrennt. Í fyrsta lagi fyrir að hafa leyft þær umræður sem verða hér á eftir til að skýra stöðu þingsins með yfirlýsingu af sinni hálfu og leyfa síðan umræður um það.

Í öðru lagi fyrir að hafa sumarið 2013, þegar hæstv. utanríkisráðherra ætlaði að ana út í sömu ófæruna og hann virðist vera að leggja fyrir sig núna, þá fyrir það að hafa fengið sjálfstætt lögfræðiálit innan þingsins og á grundvelli þess talað hæstv. utanríkisráðherra ofan af þeirri vitleysu.

Í þriðja lagi fyrir að hafa í útvarpsfréttum á hádegi fimmtudags talað mjög skýrt, bent á það að í bréfinu væri hvergi að finna orðið „slit“. Með öðrum orðum, sú yfirlýsing hæstv. forseta liggur fyrir að þar er ekki um að ræða slit á aðildarviðræðum. Og það sem skiptir ekki minna máli er að sá maður sem ætti að hafa mestan þunga og hefur hann í utanríkismálum, þ.e. hv. formaður utanríkismálanefndar, hefur nákvæmlega sömu túlkun á því. Það er punctum saliens í þessu máli.