144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Meiri hlutinn ræður, sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, en hann tók ekki fram hvaða meiri hluti. Hann hlýtur að vera að tala um meiri hlutann í ríkisstjórninni miðað við hvernig farið er fram.

Mig langar að minna hæstv. ráðherra á að við sendum fólk út um allan heim til að fylgjast með kosningaeftirliti og framkvæmd kosninga. Við gerum það meðal annars á vegum Evrópuráðsins. Hvað er verið að skoða? Eitt af því sem horft er mest til er hvernig staða stjórnarandstöðu viðkomandi ríkja er, það sem skilur á milli lýðræðisríkjanna og einræðisríkjanna er hvernig búið er að stjórnarandstöðu.

Ég gerði enga athugasemd við það fyrir kosningarnar 2009 þegar sjálfstæðismenn fluttu 600 ræður um fundarstjórn forseta. Það var þeirra lýðræðislega vörn til að verja stjórnlagaþing, tillögu sem Framsóknarflokkurinn flutti. (Gripið fram í: 600 ræður.) 600 ræður á þeim tíma. Við gerum enga athugasemd við það. Við viljum að íslenska þingið fái að koma að málum og ræða þau og afgreiða þau, við deilum ekki um niðurstöðuna. Og við notum ekki: Við heyrðum hvað menn ætluðu að segja. (Forseti hringir.) Við viðurkennum niðurstöðu atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) þegar mál er afgreitt í þinginu. Þá gildir meiri hlutinn.