144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum bara sleppt því í þingsal að vera að fjalla um einhverjar þingsályktunartillögur, vegna þess að það er greinilega þannig að eitthvert ætlað samþykki einhvers óskilgreinds meiri hluta í þinginu er það sem gildir þegar þessi ríkisstjórn tekur ákvarðanir sínar. Til hvers er verið að láta okkur standa í því að vanda okkur í umfjöllun um þingsályktunartillögur? Það hefur ekkert upp á sig, þær hafa ekkert gildi miðað við það sem hér hefur komið fram.

Síðan vil ég líka nefna, vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra er í salnum og miðað við orð hans áðan mátti ætla að sú niðurstaða að sækja um aðild að Evrópusambandinu hefði verið fengin fram með einhverjum annarlegum hætti, og vil minna þetta þing á að það voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem áttu sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili sem greiddu atkvæði með þeirri tillögu. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka, líka Sjálfstæðisflokksins.

Virðulegi forseti. Þarna er verið að ganga fram hjá þverpólitískri samþykkt í þessum sal og eigna tveimur stjórnmálaflokkum, bara af því að það hentar í þessu tilfelli, (Forseti hringir.) í þessum slag að gera það, þá niðurstöðu. Það er bara rangt, (Forseti hringir.) vegna þess að fulltrúar fimm stjórnmálaflokka greiddu atkvæði með tillögunni.