144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er allt mjög undarlegt. Við settum á dagskrá umræðu um stöðu þingsins en það mál fæst ekki rætt vegna þess að menn vilja ræða um fundarstjórn forseta. Ég er með í höndunum lögfræðilega samantekt skrifstofu Alþingis um gildi þingsályktana Alþingis. Þar kemur fram á bls. 8 að það sé í valdi þingsins að leggja mat á hvort ríkisstjórn eða ráðherra hafi fylgt eftir ályktunum þess og eftir atvikum að bregðast við með þeim hætti sem það eða meiri hluti þess telur réttan.

Það eina sem vantaði hér í gagnrýni á fyrri ræðu mína undir liðnum um fundarstjórn forseta var að fram kæmi kenning um að minni hlutinn réði. En það vita allir að það er ekki regla sem gildir hér eða annars staðar í lýðræðisríkjum og er ekki merki um að stjórnarandstaðan standi veikt, að hún fái ekki að ráða heldur að hún fái aðkomu að málum og geti efnt til málefnalegrar umræðu, (Gripið fram í.) að hún komi að málum og komi sjónarmiðum sínum á framfæri. Um það snýst þetta alltaf allt saman um.

Það er í raun og veru ótrúlega dapurlegt að fylgjast með því sem sagt er hér um stöðu þingsályktana og að menn skuli horfa alveg þvert og gegn betri vitund í gegnum það að að sjálfsögðu ræðst það af vilja meiri hluta þingsins ef ráðherrar í einstökum málum fara ekki að vilja þingsins (Forseti hringir.) eins og hann m.a. birtist í þingsályktunum. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er það þannig og menn eiga ekki að vera með þennan skrípaleik og uppistand (Forseti hringir.) út af þessu máli þar sem niðurstaðan er jafn augljós og raun ber vitni og þetta stendur allt hér í þessari lögfræðilegu úttekt.