144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu um það sem er á dagskrá á eftir eins og aðrir hafa gert síðustu 45 mínúturnar og ræða það sem er efni sérstakrar umræðu sem á að hefjast á eftir. Ég ætla heldur ekki að fara í efnislega umræðu um bréf utanríkisráðherra sem verður til umræðu í þinginu á morgun. Ég vil bara vekja athygli á því að hér var gert ráð fyrir því, eftir því sem mér skildist, að efnt yrði til sérstakrar umræðu um stöðu þingsályktunartillagna til þess að gefa kost á umræðum um það. Mér skildist að um það hefði verið samið við þingflokksformenn í morgun, en síðustu 45 mínúturnar a.m.k. hafa farið í að ræða nákvæmlega það efni undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Ég velti fyrir mér og spyr hæstv. forseta: Hvers vegna að efna til sérstakrar umræðu um þetta efni (Forseti hringir.) samkvæmt ósk stjórnarandstöðunnar ef stjórnarandstaðan ætlar að nota öll önnur tækifæri til að ræða þetta sama mál? (Gripið fram í.)