144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[16:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu um stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég ætlaði nú ekki að fara að halda langa ræðu um Evrópusambandið eða afstöðu Vinstri grænna í því sambandi, en úr því að hæstv. fjármálaráðherra óskaði eftir umræðu um þá afstöðu, sem ég veit að honum finnst erfitt að skilja, er það nú svo að við höfum samþykkt það á landsfundum okkar að þrátt fyrir að við höfum þá afstöðu að Ísland eigi ekki að ganga í ESB, teljum að við eigum að standa utan þess sambands, finnst okkur þetta mál vera af þeirri stærðargráðu að eðlilegt sé að það komi til þjóðarinnar til úrlausnar, að leitað verði leiðsagnar þjóðarinnar. Ég veit að sumum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum finnst það pólitískur ómöguleiki að sætta sig við að framfylgja stefnu sem maður er jafnvel ekki sammála sjálfur, en ef maður vill beita sér fyrir auknu beinu lýðræði, sem ég vil, verður maður líka að sætta sig við það að verða stundum undir og geta fylgt þeirri stefnu. Það er auðvitað klemma, ég skal viðurkenna að það er klemma, en ég tel það ekki vera ómöguleika.

Evrópumálin ætluðum við að ræða sérstaklega á morgun. Mér finnst það sem við ræðum í dag, sem er þingið sjálft, ekki síður mikilvægt. Við samþykktum mörg hver sem hér vorum 2010 þingsályktun, af því að við ræðum nú gildi þingsályktana. Við 63 sem vorum hér í salnum samþykktum að mikilvægt væri að Alþingi mundi verja og styrkja sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Hefur Alþingi varið sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk þegar við umberum — og þá er ég ekki að meina okkur í stjórnarandstöðunni því að við umberum það ekki, en ég horfi sérstaklega á þingmenn meirihlutaflokkanna — að ákvarðanir séu teknar sem ganga gegn áður samþykktum þingsályktunum og þær ekki einu sinni kynntar Alþingi eða í utanríkismálanefnd Alþingis? Þó stendur í þingskapalögum að utanríkismálanefnd eigi að vera utanríkisráðherra til ráðuneytis um öll meiri háttar utanríkismál. Síðan segir utanríkisráðherra í dæmalausri grein að hann hafi nú ekki metið það svo að þetta væri meiri háttar utanríkismál.

Ég held, virðulegi forseti, að þessa grein þurfi að styrkja í endurskoðuðum lögum um þingsköp ef það á að vera geðþóttaákvörðun hvenær ákvarðanir eru meiri háttar eða ekki, því að ef þetta er ekki meiri háttar ákvörðun þá veit ég ekki hvað, þá merkir þetta bréf líklega ekki neitt og það er kannski ein túlkun á því.

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn í gildandi stjórnarskrá og ráðherrar starfa hér í umboði Alþingis. Sú túlkun gengur ekki upp að menn telji sig geta farið með framkvæmdarvaldið sem þeir þiggja frá Alþingi og fara með í umboði Alþingis út frá því að þeir telji að þeir hafi meiri hluta þingsins á bak við sig. Sú túlkun gengur ekki upp. Þá þarf að fara með málin inn í þing og hafa meiri hluta Alþingis á bak við sig í þeim málum. Það á við um það þegar menn hyggjast breyta um stefnu. En ég hef áhyggjur af því hvort við störfum almennt samkvæmt þessu. Það á ekki bara við um hina margumræddu þingsályktun frá árinu 2009. Hvað samþykktum við árið 2013? Samþykktum við ekki aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu þar sem skilgreint er í samþykktri þingsályktun hvernig Ísland hyggist auka framlög sín til þróunarsamvinnu? Hvert var fyrsta verk ríkisstjórnar? Jú, það var að hverfa frá þeirri þingsályktun og hefur ekki önnur þingsályktun verið lögð fram um það efni. Hvað varð um eflingu græna hagkerfisins, samþykkta þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum? Hvað er efling græna hagkerfisins í dag? Hún er fjárlagaliður um húsafriðun, sem er mjög verðugt mál og gott en ekki efling græna hagkerfisins sem samþykkt var hér.

Ég get nefnt dæmi um ályktanir sem virtar hafa verið, sem betur fer. Ég nefndi tvær ályktanir áðan um það hvernig við höfum mótað afstöðu okkar í málefnum Palestínu og Ísraels. Ég nefndi líka ályktun um hvalveiðar, sem ég er ekki sammála en hún hefur hins vegar verið virt og virðulegur forseti fór yfir það áðan í ræðu sinni. En það eru aðrar ályktanir sem virðast fara hér fyrir borð.

Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki aðeins að endurskoða það hvernig við störfum hér, hvernig nákvæmlega er farið með þær ályktanir sem Alþingi leggur ærna vinnu í að samþykkja og vinna að þannig að þær haldi, þannig að hér geti framkvæmdarvaldið ekki bara ákveðið upp á sitt einsdæmi nánast að breyta stefnunni eða gert það í gegnum fjárlög án þess að sérstök umræða fari fram um að taka þá stefnubreytingu. Ég nefni þróunarsamvinnuna sem dæmi um það þar sem ákvörðun er tekin um að fara frá samþykktri þingsályktun í gegnum fjárlög.

Það er ekki góður bragur á því, virðulegi forseti, þannig að ég minni á samþykktina um að við verjum og styrkjum sjálfstæði okkar og grundvallarhlutverk. Ef við ætlum að gera það þurfum við greinilega að vanda betur til vinnubragða. Ég lít svo á að það að virðulegi forseti hafi ákveðið að taka þetta mál á dagskrá sýni að hann sé reiðubúinn til þess því við getum ekki umborið að framkvæmdarvaldið líti svo á að það sé nóg að segjast hafa meiri hluta fyrir málinu og gera svo það sem manni sýnist. Þannig getum við ekki unnið ef við berum virðingu fyrir þinginu. Ég vil treysta því að okkur lánist og auðnist að breyta þessu því að þetta gengur ekki. Þá getur minni hlutinn á þinginu alveg eins pakkað saman og farið heim.