144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fyrst örstutt um það hvort þingsályktunartillögur séu bindandi eða í hvaða mæli þær séu það fyrir framkvæmdarvaldið. Þar nægir að vitna í niðurstöður greinargerðarinnar um hina lögfræðilegu samantekt þar sem segir:

„Til heimilda stjórnskipunarréttarins teljast ályktanir Alþingis.“ — Þær eru hluti af stjórnskipunarrétti í landinu. — „Tilmæli sem í þeim felast og beint er til ríkisstjórnar eru bindandi fyrir ríkisstjórnina á grundvelli þingræðisvenjunnar. Lýsir það sér þannig í framkvæmd að stjórnvöld fylgja almennt ályktunum Alþingis.“

Enn segir:

„Það er jafnframt niðurstaða þessarar samantektar að ríkisstjórninni, eða eftir atvikum hlutaðeigandi ráðherra, ber að eiga frumkvæði að því að upplýsa Alþingi ef hún hyggst ekki fylgja eftir ályktun þess. Hefur sérstökum stoðum verið skotið undir þessa reglu með breytingum á þingsköpum 2011.“

Enn síðar segir og það eru lokaorð þessarar samantektar:

„Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður að gera ráð fyrir því að Alþingi sé upplýst um slíkar breytingar“ — þ.e. breytingar á málsmeðferð — „og um leið leitað afstöðu þingsins eða meiri hluta þess til breytinga á málsmeðferðinni.“

Í öðru lagi er rík stjórnskipunar- og þingræðishefð fyrir því að stefnumótun á sviði utanríkismála hefur verið í meira mæli í höndum Alþingis en almennt á við. Alþingi hefur aftur og aftur mótað stefnu Íslands í utanríkismálum og það hefur aldrei verið deilt um það að ef Alþingi hefur með skýrum hætti sett slík mál í farveg gilti sú stefnumótun þangað til annað væri ákveðið. Gott dæmi er afstaða Íslands til Palestínu sem í þrígang hefur algerlega verið mótuð af Alþingi sjálfu, árið 1990 og síðan í tvígang eftir aldamótin, síðast þegar Alþingi samþykkti að fela framkvæmdarvaldinu að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu innan landamæranna frá 1967. Hefur einhverjum dottið í hug að sú ályktun sé ekki í fullu gildi? Hefur einhver efast um að utanríkisráðherrar síðan hafi framkvæmt hana og farið eftir henni? Nei.

Þá að lokum: Hvað fólst í bréfi utanríkisráðherra? Það var ekki afturköllun umsóknar. Það var ekki tilkynning um slit á viðræðum Íslands við Evrópusambandið um aðild. Nei, það var tilkynning um að ríkisstjórnin vildi ekki að Ísland teldist umsóknarríki. Í því felst málsvörn bæði hæstv. forseta og formanns utanríkismálanefndar sem gerir svo lítið úr bréfi utanríkisráðherra að hann segir að það hafi ekki verið brot á samráðsskyldunni við utanríkismálanefnd að kynna það ekki þar fyrst vegna þess að það væri ekki um neitt. Það er „slepptu mér, haltu mér“. Það er ekki afturköllun á umsókninni heldur bara lýsing á þeirri skoðun ríkisstjórnar Íslands eða þeirri tilfinningu svona frá innyflunum að ríkisstjórnin vilji ekki að Ísland sé umsóknarríki. Hún óskar samt ekki eftir því að umsóknin sé afturkölluð, tilkynnir það ekki. Þetta gengur ekki, svona getum við ekki mótað utanríkisstefnu þjóðarinnar, hvorki hvað varðar samskipti við Alþingi né gagnvart öðrum aðilum.