144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það vekur mann til verulegrar umhugsunar hversu ólík sjónarmið koma hér fram af hendi stjórnarflokkanna um það hvað hafi gerst. Það er í raun og veru allt frá því að ekkert hafi gerst; menn hafi bara skrifað bréf um það sem lá fyrir og það sé engin frétt, og alveg yfir í það að við séum á byrjunarreit í þessu tiltekna máli.

Það er náttúrlega með ólíkindum, en til viðbótar við það ber mönnum engan veginn saman um hvert gildi þingsályktunartillagna er almennt gagnvart þinginu, þannig að þar er líka verið að fara út og suður með túlkanir. Það reynir nú bara verulega á, virðulegur forseti, að halda þræði í þessum umræðum. En ég held að það sé afar mikilvægt að við skiljum það þannig, alþingismenn, að ef efasemdir eru um stöðu þingsályktunartillagna sé það þannig að vafann beri að túlka lýðræðinu í vil, þ.e. að við eigum að byrja á því að horfa út frá lýðræðinu, kosningum, umboði til þingsins og síðan umboði okkar til framkvæmdarvaldsins. Það er í þá áttina sem við eigum að vinna.

Ég er nefnilega áhyggjufull yfir því þegar ráðherrar tala hér og túlka þessar efasemdir og þennan vafa alltaf framkvæmdarvaldinu í vil. Það kristallaðist raunar í háreysti hæstv. fjármálaráðherra þegar hann æpti yfir salinn að meiri hlutinn réði, sem var eiginlega lágpunktur umræðunnar hér í dag.

Aðdragandi málsins í síðustu viku afhjúpar líka umgengni þessarar ríkisstjórnar við lýðræðið. Tekin er ákvörðun eftir samráð við Evrópusambandið, eftir samráð við hið hræðilega Evrópusamband á þriðjudeginum í síðustu viku. Stolt ríkisstjórn tekur ákvörðun við langborðið í Stjórnarráðinu. Og hvað gerist? Kemur forsætisráðherra út á tröppurnar og segir frá því hver niðurstaðan sé? Nei. Kemur utanríkisráðherra út á tröppurnar og segir: Nú liggur fyrir hvað við ætlum að gera? Nei. Og daginn eftir eru þingflokksfundir í stjórnarflokkunum og hvað er gert? Var tekin ákvörðun um það á ríkisstjórnarfundi: Svo skulum við ekki segja þingflokkunum frá þessu? Var það ákvörðun eða var það tilviljun? Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar fóru þá leið að segja ekki sínu eigin fólki frá því sem gerðist, ekki sínu eigin fólki. Og svo framvegis, við þekkjum svo framhald sögunnar með bréfið á fimmtudaginn og uppnámið hér á föstudeginum og í dag.

Þessi umgengni við lýðræðið og skilningsleysi á því í hvaða stöðu við erum — hér er um að ræða upphaf á mjög langri og ítarlegri umræðu um stöðu lýðræðisins og stöðu þingsins á Íslandi, (Forseti hringir.) sem er í sannkallaðri kreppu í tíð þessarar hægri stjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.