144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst við aðeins þurfa að ræða það hér, og ég held að forseti ætti að gera hlé á þessum fundi og fara aðeins yfir það með formönnum þingflokka, hvernig menn umgangast lög. Hér er verið að taka ákvörðun um það í atvinnuveganefnd, af meiri hlutanum, að sniðganga löggjöf þar sem við höfum búið okkur til skapalón um það hvernig við ætlum að fara með ákvarðanir um virkjanir og vernd í þessu landi á náttúruperlum. Hér er tekin ákvörðun um að taka Hagavatn inn í breytingartillögur við einn virkjunarkost. Hagavatn er kostur sem er ekki fullskoðaður af verkefnisstjórninni. Verkefnisstjórnin hefur aldrei lokið umfjöllun um Hagavatn og Hagavatnsvirkjun og þar af leiðandi er nú búið að ákveða að henda út á hafsauga lögum um vernd og nýtingu náttúrusvæða hér á landi. Mönnum er algjörlega sama um þá (Forseti hringir.) umgjörð sem við höfum sett okkur um það (Forseti hringir.) hvernig við vinnum hlutina, vegna þess að ef menn eru (Forseti hringir.) búnir að ákveða að þeir vilji hafa einhverja hluti öðruvísi þá skipta lög engu máli.