144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem hér er á ferðinni er af sama meiði og það mál sem verið hefur í umræðunni síðustu daga. Það er algert virðingarleysi stjórnarmeirihlutans fyrir lögboðnum ferlum, fyrir því hvernig taka á ákvarðanir og afgreiða hluti. Hvernig má það vera þegar það kemur alveg skýrt fram í umsögn verkefnisstjórnar að það fari beinlínis í bága við lög um rammaáætlun að afgreiða Hagavatnsvirkjun í nýtingarflokk, að menn ákveði í atvinnuveganefnd að virða slík ummæli og slíkar aðvaranir að vettugi og afgreiða samt sem áður breytingartillögu eins og ekkert hafi í skorist? Ætla menn þá bara að láta sem ekkert sé þegar þeim er sagt af þar til bærum aðilum að þeir séu beinlínis að brjóta lögin og halda sínu fram? Er virðingarleysið algert, ekki bara þegar kemur að (Forseti hringir.) þingsköpunum og samráði við utanríkismálanefnd í Evrópusambandsmálinu, heldur líka (Forseti hringir.) í þessu? Skiptir engu (Forseti hringir.) máli hvað stendur skrifað í lögunum?