144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær fengum við aldeilis lexíu í því hvernig menn fara með þingsályktanir. Þær virðast engu máli skipta ef hæstv. ráðherrar eru á annarri skoðun. Í dag fáum við lexíu í því hvernig menn umgangast löggjöf sem við höfum sett okkur á Alþingi, með hvaða hætti við umgöngumst ákveðin mál og þá verkferla sem við setjum okkur í að taka faglegar ákvarðanir. Við fáum hér þá lexíu að þeir verkferlar skipti engu máli og að menn virði slíka löggjöf að vettugi. Það er verið að því hér.

Þess vegna spyrja menn núna: Hvers vegna eigum við að treysta því að löggjöf sem sett er, tökum sem dæmi um opinber fjármál og menn horfa til að gera lög um á næstunni, ef freki kallinn tekur ákvörðun um að eitthvað allt annað henti honum, að þessu verkferli þurfi ekki að fylgja? Það er það sem er verið að senda skilaboð um hér, þessari ríkisstjórn er sama um verkferla (Forseti hringir.) í löggjöf ef hún er á annarri skoðun.