144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi er fullvalda stofnun. Það er æðsta ákvörðunarvald íslenska ríkisins og fullveldi þess helgast af tvennu; af stjórnarskránni og sömuleiðis venjuhelguðum stjórnskipulegum leikreglum. Ein þeirra sem hvergi er skráð er þingræðisreglan sem allt okkar starf byggir á. Sú túlkun sem hæstv. ráðherra hafði hér á þinræðisreglunni er óvanalega hörð, „brútöl“, að ég segi ekki „vúlger“, og hefur aldrei heyrst fyrr en á þessum dögum hér á hinu háa þingi. Í reynd þýðir hún: Ráðherra getur farið sínu fram hvernig sem hann vill á meðan ekki er samþykkt vantraust á hann. Það er villimennska.

Ég hef eina spurningu óskylda athugasemd minni til hæstv. ráðherra. Hún er þessi: Telur hæstv. ráðherra að bréf hans feli í sér einhver stjórnskipuleg eða málefnaleg rök gegn því að ný ríkisstjórn geti tekið upp þráðinn aftur án þess að til þess sé samþykkt sérstök þingsályktun hér?