144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna svari hæstv. ráðherra. Hann syngur eins og kólibrífugl í mín eyru. Þetta var svarið sem ég vildi fá. Hæstv. ráðherra hefur staðfest það núna, sem er í andstöðu við það sem hann hefur verið að segja suma dagana, að ekkert í bréfi hans feli í sér neina stjórnskipulega tálma gegn því að ný ríkisstjórn taki upp málið, endurveki það með þeim hætti sem hún kýs. Hitt segi ég líka að ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að rétt sé að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. En það er mikilvægt að þetta liggi fyrir. Hæstv. ráðherra hefur náttúrlega haldið með þeim hætti á þessu máli að hægt væri að hafa mörg orð um það. Ég læt mér nægja að segja að í síðustu viku hafði hann á þremur dögum jafnmargar skoðanir á málinu. Hæstv. ráðherra sagði til dæmis í einu viðtali, sem hann staðfestir núna, að hann hafi ekki sent neitt bréf sem fæli í sér eina eða neina breytingu eða rifti neinu. Þá liggur það bara skýrt fyrir að hæstv. ráðherra er sammála hæstv. forseta Alþingis. (Forseti hringir.) Þá er ég glaður.