144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitna til orða minna hér í upphafi um að hv. þingmaður á það til að vera svolítið skrýtilegur, ef ég má orða það þannig, í ræðum sínum og í túlkun sinni á orðum fólks. Ég held hins vegar að hv. þingmaður verði að gera sér grein fyrir því að kólibrífuglasöng mun hann ekki heyra frá mér í þessu máli. Það er alveg kristaltært að mínu viti að ríkisstjórn sem ætlar sér að fara aftur af stað í viðræður við Evrópusambandið á að koma hér í þingið og þarf í rauninni að koma með nýja tillögu í þingið til að fara af stað. (ÖS: Þú sagðir annað áðan.) (Gripið fram í: Þú sagðir annað áðan.) [Háreysti í þingsal.]

Nú hvet ég hv. þingmann til þess að hlusta eða að minnsta kosti að fara til baka (Gripið fram í.) og lesa það sem ég sagði, skrifa það út. Ég hvet hv. þingmann til þess í staðinn fyrir að reyna að snúa hér út úr.