144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít á þetta sem risavaxna breytingu á starfsháttum Alþingis ef það er svo að túlkun þessarar ríkisstjórnar sé sú að njóti þingsályktanir ekki meiri hluta sé hægt að hverfa frá samþykktum þingsályktunum án þess að leita aftur til þingsins, (Gripið fram í.)án þess að leita aftur til þingsins. (Gripið fram í.) Ég fæ satt að segja ekki þennan skilning úr þeirri álitsgerð sem allir þingmenn hafa vitnað hér í fram og til baka. Það kemur skýrt fram í niðurlagi hennar að það þurfi á einhvern hátt að upplýsa þingið eða leita til þingsins. Ég get því ekki litið öðruvísi á en svo á að þessi túlkun fái ekki staðist út frá þeirri lögfræðilegu álitsgerð.

Ég spyr hæstv. ráðherra aftur hvort hann telji þetta, alveg óháð lögum, góð vinnubrögð? Er ekki betra að leita til þingsins? Ég spyr hæstv. ráðherra um afstöðu hans þegar um er að ræða meiri háttar utanríkismál og breytta afstöðu í meiri háttar í utanríkismálum: Er það ekki betra, eru það ekki betri vinnubrögð, hæstv. ráðherra?