144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki tíma til þess að fara í ítarlegar umræður við hæstv. utanríkisráðherra um lýðræðislegt umboð. En svar hans veldur mér miklum ugg, svo ekki sé meira sagt. Að nota það sem afsökun fyrir því að fara fram hjá þinginu að þinginu sé ekki treystandi fyrir málinu er vantraustsyfirlýsing af hálfu hæstv. utanríkisráðherra gagnvart þinginu. Það gengur ekki, virðulegi forseti.

Hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin kynntu þetta ekki einu sinni fyrir eigin flokkum fyrr en eftir að ákvörðunin hafði verið tekin. Stefna ríkisstjórnarinnar má vera eins skýr og hún er, en stefna stjórnarflokkanna fyrir kosningar var að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og var marglofað. Hérna koma fram stjórnarliðar úr röðum hv. alþingismanna sem lýsa því yfir að þeir vilji fá þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. En hæstv. utanríkisráðherra telur hausa, 38 á móti 25, og ákveður að þá hljóti þingið að samþykkja þetta. Ef þingið hagi sér ekki (Forseti hringir.) eins og hæstv. utanríkisráðherra þóknast skuli hann bara sniðganga það. Það er nákvæmlega þessi orðræða (Forseti hringir.) sem ég óttaðist að kæmi frá hæstv. utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.