144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf að leiða hjá mér í stuttu andsvari tilburði hæstv. utanríkisráðherra til að afnema þingræðisvenjuna, tek það betur fyrir síðar.

Hæstv. ráðherra hefur verið nokkuð mótsagnakenndur í túlkunum á sínu eigin bréfi og lenti í nokkrum vanda vegna þess eins og kunnugt er. Hæstv. ráðherra segir að hér sé meðal annars verið að bregðast við óskum Evrópusambandsins um skýrleika, að skýra stöðu aðildarferlisins. Ef ætlun hæstv. ráðherra var að slíta viðræðuferlinu, afturkalla umsóknina frá 2009, af hverju var það þá ekki sagt í bréfinu? Kunnu menn ekki að orða það þannig? Gátu menn ekki sagt til dæmis: Umsóknin frá því í júlí 2009 er hér með afturkölluð. Það er ekki gert í bréfinu. Eða: Viðræðum um aðild Íslands er hér með slitið. Það er ekki sagt í bréfinu. Eða: Viðræðum um aðild Íslands er slitið og umsóknin afturkölluð. (Forseti hringir.) Það er ekki sagt í bréfinu. Ef þetta var ætlunin, ef þetta var tilgangur leiðangursins, (Forseti hringir.) af hverju orðuðu menn það þá ekki skýrt?