144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Alþingi er svo vel búið þessa dagana að hægt er að fletta upp umræðum á fyrri þingum með tiltölulega skömmum fyrirvara. Þingsályktunartillagan var rædd 27. febrúar, síðan var hún rædd 10. mars, 11. mars, 12. mars og 13. mars. Þetta eru örfáir dagar sem fóru í að ræða Evrópusambandið, virðulegi forseti. Evrópusambandið.

Mér finnst stundum eins og hæstv. utanríkisráðherra viti ekki hvaða mál hann er að díla við. Síðast en ekki síst má nefna að 14. mars 2014 stendur, með leyfi forseta: „Málið gekk til utanríkismálanefndar 14.3.2014.“ Þar var málið. Formaður þeirrar nefndar er hinn sérstaklega hv. 9. þm. Reykv. n., Birgir Ármannsson. Þar var málið. Það að þingið ræði málið í nokkra daga og sendi það síðan til nefndar, þar sem sjálfstæðismaður í þokkabót hefði getað tekið það út, sé kallað í fyrsta lagi málþóf,(Forseti hringir.) í öðru lagi notað sem afsökun fyrir því að ríkisstjórnin taki bara málin í eigin hendur af þinginu, er fullkomlega til skammar og er ekki í boði.