144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í gær sá hæstv. forseti sérstaka ástæðu til að gefa yfirlýsingu um stöðu þingsins. Ástæðan var jú bréf hæstv. utanríkisráðherra til Evrópusambandsins sem forseti kvað á um að hefði ekki áhrif á stöðu og gildi þingsályktunar frá 2009. Gott og vel.

Hér í dag gefur utanríkisráðherra skýrslu um bréfið dæmalausa og kemur ekki aðeins með eindæma túlkun á þingræðinu heldur gefur hann auk þess í skyn að þingmenn hafi ekki málfrelsi heldur tjái sig hér eingöngu til að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslur.

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að forsætisnefnd ræði það alvarlega hvernig eigi að koma ráðherrunum í skilning um (Forseti hringir.) að þeir starfi í umboði þingsins og að þeir, óháð meiri hluta eða minni hluta, sýni þingmönnum tilhlýðilega lágmarkskurteisi.