144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra sökkva dýpra í fenið, í fyrra lagi með því að reyna að túlka þingræðisvenjuna út af borðinu. Hæstv. ráðherra, ráðherra í ríkisstjórn Íslands, kemur í ræðustól á Alþingi og túlkar þingræðisvenjuna út af borðinu. Hún er ekki til að mati hv. þm. og hæstv. ráðherra Gunnars Braga Sveinssonar.

Í hinu laginu ber hæstv. ráðherra þingmenn hér þeim sökum að hafa komið í veg fyrir atkvæðagreiðslu um þingmál með því að tala í fáeina daga samtals, allur þingheimur — um hvað? Við fyrri umr. þingsályktunartillögu um stórmál. Það virðist hafa farið fram hjá hæstv. ráðherra að tillögur ganga án atkvæðagreiðslu til nefndar eftir fyrri umr. Það var ekki komið í veg fyrir neina atkvæðagreiðslu með því. Þess þurfti ekki. Þegar umræðunni lauk gekk málið til nefndar. Var það ekki 13. mars? Og þar dagaði það uppi af því að allir vissu að stjórnarflokkarnir voru sprungnir á limminu og lögðu ekki í (Forseti hringir.) að afgreiða málið út. Ef þeir vildu hafa vaðið fyrir neðan sig og nógan tíma, af hverju var þá ekki tillagan endurflutt í haust, hæstv. ráðherra, strax og þing kom saman þannig að þeir hefðu heilan vetur til að reyna að koma henni í gegn?